Gagnlegar upplýsingar

Tölvuleikir eru góð dægradvöl og leið til að leika sér á skapandi hátt, öðlast vitsmunaþroska og eiga í félagslegum samskiptum, auk þess að vera leið til sjálfstjáningar. Erfitt getur þó verið fyrir foreldra að fóta sig í heimi tölvuleikja, jafnvel þá sem spiluðu sjálfir tölvuleiki sem börn. Tölvuleikir hafa þróast mikið á síðastliðnum 25 árum samhliða annarri netupplifun svo sem samfélagsmiðlum, og foreldrar þurfa að finna svör við fjölmörgum spurningum til að tryggja að börn sín geti notið tölvuleikja á öruggan og ábyrgan hátt. PEGI flokkarnir veita viss svör um efni tölvuleikja, en auk þess velta foreldrar fyrir sér ýmsum öðrum þáttum: 

  • Hve lengi ætti ég að leyfa barninu að spila tölvuleiki? 

  • Við hvern er barnið mitt að leika og eiga í samskiptum? 

  • Vil ég að barnið mitt eyði peningum í tölvuleiknum? 

  • Hvað verður um persónuupplýsingar og hvernig er persónuvernd barnsins háttað? 

Þetta eru mikilvægar spurningar sem eru ekki á færi einfalds flokkunarkerfis að svara, en tölvuleikjafyrirtæki eru að bregðast við slíkum áhyggjuefnum með öðrum leiðum. 

PEGI veitir ýmis góð ráð fyrir foreldra, sem þeir geta notað sem gátlista til að tryggja að börn sín leiki sér á öruggan og ábyrgan hátt. 

Allar leikjatölvur bjóða upp á foreldrastýringar, sem gera kleift að fylgjast með eða takmarka ýmsa þætti tölvuleikja, hvort sem það er tíminn sem börn þeirra eru í tölvuleikjum, efnisflokkun leiksins, hvort hægt er að eyða peningum í leiknum eða með hvaða móti er hægt að eiga samskipti við aðra spilara. 

Margir tölvuleikir bjóða upp á kaup í leiknum til að útvíkka eða sérsníða upplifunina af grunnleiknum. Fyrir suma leiki sem spila má ókeypis eru valkvæð kaup eina tekjulindin og stundum eru þau í boði samhliða auglýsingum í leiknum. Viðskiptalíkön tölvuleikja eru orðin mjög fjölbreytt, en foreldrar geta alltaf fylgst með og stýrt því hvort og hvernig börnin verja peningum í þá. 

Þótt enn sé mjög vinsælt að spila tölvuleiki án nettengingar er nettengd leikhögun (e. online gameplay) oft þungamiðjan í leiknum. Netleikir gera ungmennum og fullorðnum kleift að njóta leiksins og eiga á sama tíma í samskiptum við aðra spilara og vini sína. Til að tryggja að þetta geti átt sér stað í öruggu netumhverfi á ábyrgan hátt hafa siðareglur PEGI að geyma nokkur ákvæði sem stuðla að lágmarksvernd ungmenna. 

Nánari upplýsingar um örugga og ábyrga tölvuleikjaspilun er að finna á eftirfarandi vefsíðum á ýmsum tungumálum: