Ábendingar fyrir öryggi á netinu

Allt frá einföldum spilasalsleikjum til rauntímafjölspilunarleikja (e. massively multiplayer online games), þar sem gríðarlegur fjöldi spilara getur tekið þátt í einum og sama netleiknum á sama tíma, hafa netleikir aukið dýpt tölvuleikja og gert þá fjölbreytilegri. Fyrir vikið er til fjöldinn allur af netsamfélögum þar sem spilarar hittast og eiga í samskiptum svo upplifunin verði sem skemmtilegust. Af þessum netsamfélögum getur þó einnig stafað hætta fyrir spilara, einkum börn, og er um að ræða áhættuþætti og áhyggjuefni sem við þekkjum úr raunheimum.  
Stundum er efni sem spilarar búa til fyrir leikinn (e. user-generated content) ekki við hæfi ungmenna og/eða stangast á við aldursflokkun leiksins. Slíkt óviðeigandi efni skal ávallt tilkynna, svo framleiðandi leikjatölvunnar eða útgefandi leiksins geti gert ráðstafanir. 
Spilarar eiga það til að hegða sér með hætti sem er ekki við hæfi ungra barna. Þau gætu heyrt grófan talsmáta eða orðið fyrir einelti í leikjum, auk þess sem óíþróttamannsleg framkoma tíðkast, svo sem svindl og árásargirni gagnvart öðrum spilurum. Útgefendur leikja hafa reglur sem gera þeim kleift að taka á slíkri hegðun. Því skal ávallt tilkynna hana með tiltækum boðleiðum. 

Ábendingar um öryggi fyrir börn og ungmenni: 

  • Slæm hegðun, ljótt orðbragð eða svindl er EKKI í lagi! Þú getur lokað á að aðrir°leikmenn geti haft samband við þig,°tilkynnt þá°til leikjaveitunnar eða -vefsvæðisins og/eða sagt foreldrum þínum frá.
  • Segðu foreldrum þínum strax frá því ef þú rekst á einhverjar upplýsingar sem láta þér líða óþægilega. Þar á meðal geta verið myndir, myndskeið og hljóð- eða textaskilaboð.  
  • Ekki gefa upp persónuupplýsingar eins og heimilisfang, netfang, símanúmer, aðgangsorð eða myndir, eða jafnvel upplýsingar um einföld atriði eins og venjubundnar athafnir daglegs lífs, nafn skólans eða áhugamál. 
  • Aldrei samþykkja að hitta einhvern sem þú kynnist á netinu nema bera það fyrst undir foreldra þína.

Í siðareglum PEGI er að finna ákvæði sem stuðla að lágmarksvernd ungmenna í netleikjaumhverfinu. Þeir aðilar sem undirrita siðareglurnar skuldbinda sig til að banna óviðeigandi efni á síðum sínum og tryggja sæmandi hegðun hjá notendum.  
Helstu ákvæðin eru þessi: 

Samræmd persónuverndarstefna
Leyfishafi PEGI á netinu sem safnar persónuupplýsingum frá áskrifendum þarf að hafa til staðar gilda og samræmda persónuverndarstefnu í samræmi við löggjöf Evrópusambandsins og gagnaverndaryfirvalda í sínu landi.

Aldursflokkaðir leikir
Eingöngu leikir sem hafa hlotið viðeigandi aldursflokkun í PEGI-kerfinu geta sótt um vottorð PEGI á netinu

Samfélagsreglur fyrir netáskrifendur 
Aðilum sem undirrita siðareglur PEGI ber að banna áskrifendum sínum að birta efni eða sýna af sér nethegðun sem er ólögleg, einkennist af kynþáttafordómum, er spillandi, ógnandi, klúr eða gæti skaðað þroska ungmenna. 

Óviðeigandi efni fjarlægt 
Tölvuleikjafyrirtækjum ber að gera það sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að netþjónusta undir stjórn þeirra sé laus við efni sem er ólöglegt, einkennist af kynþáttafordómum, er spillandi, ógnandi, klúrt eða gæti skaðað þroska ungmenna. 

Ábyrg auglýsingastefna

  • allar auglýsingar skulu endurspegla með réttum hætti eðli og innihald vörunnar sem sýnd er og, að því marki sem raunhæft er, þá flokkun sem hún hefur hlotið
  • allar auglýsingar skal búa til með ábyrgðartilfinningu gagnvart almenningi
  • engin auglýsing má innihalda efni sem er líklegt til að valda mikilli eða víðtækri óánægju
  • auglýsingum fyrir vörur með flokkun 16+ eða 18+ skal ekki beina sérstaklega til þeirra sem yngri eru
  • stoðvörur eða aðskildar vörur sem eru seldar eða kynntar í tengslum við kjarnavöru verða að henta þeim aldurshópi sem kjarnavaran er ætluð fyrir
  • með almennri yfirlýsingu ættu leyfishafar að tilkynna almenningi um stuðningsaðila og/eða tilvist „vörusýninga“ sem tengjast netþjónustu þeirra